Enn er stjórnarkreppa í Grikklandi

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokka Grikklands ganga á fund forseta landsins, Carolos Papoulias, í dag þar sem freista á þess að ná samkomulagi um myndun stjórnar eftir kosningarnar fyrir rúmri viku. Takist ekki að mynda stjórn, verða þingkosningar haldnar að nýju í júní. Flokkarnir hafa frest til stjórnarmyndunar þar til á fimmtudaginn.

Stíf fundahöld hafa verið frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir og hafa allir möguleikar verið ræddir, án árangurs.

„Ég sé ekki neina leið færa í stjórnarmyndun,“ sagði Fotis Kouvelis. formaður vinstriflokksins Dimar í sjónvarpsviðtali í gær eftir að leiðtogar Syriza flokksins, næststærsta flokks landsins, höfnuðu allri þátttöku í samsteypustjórn. 

„Ríkisstjórn án Syriza hefur ekki nægilegan stuðning á þingi,“ sagði Kouvelis sem áður starfaði með Syriza, en sagði sig úr flokknum árið 2010.

Afstaða Dimar-flokksins til lánveitinga Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þau skilyrði sem þeim fylgja er talin ráða miklu um, en flokkurinn vill að Grikkir dragi sig þegar til baka.

Auk leiðtoga Syriza, sem ætla ekki að mæta, hefur forsetinn boðað leiðtoga hægriflokksins Nýtt lýðræði og Pasok-flokksins á fund sinn í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert