Fyrir nýkjörinn forseta Frakklands er ekki í boði að fara rólega af stað í embættinu. Hans fyrsta embættisverk eftir að hann sver embættiseið á morgun verður að storma til Berlínar til fundar við Angelu Merkel kanslara Þýskalands um krísuna á evrusvæðinu. Búist er við því að þau takist hart á.
Þýskaland og Frakkland hafa verið leiðandi í evrukrísunni í samvinnu Merkel og Nicolas Sarkozy, fráfarandi Frakklandsforseta. Sigur Hollande er talinn geta valdið pólitískum straumhvörfum innan Evrópusambandsins og á það mun reyna í fyrsta sinn á morgun, en Hollande hefur lýst því yfir að hann vilji taka upp fjármálasáttmála ESB og semja að nýju með breyttum áherslum.
Tekur Holland í „útbreiddan faðminn“
Merkel hefur lýst því yfir nánast daglega síðan hann sigraði að sáttmálinn, sem 25 af 27 ESB löndum skrifuðu undir, verði að standa óbreyttur. Hún talar fyrir aðhaldi og sparnaði sem farsælustu leiðinni út úr kreppunni, en Hollande vill leggja áherslu á hagvöxt í evrulöndunum 17. Fleiri málaflokkar gætu orðið þeim tilefni til deilna á morgun, s.s. ólíkar meiningar þjóðhöfðingjanna tveggja um hlutverk Seðlabanka Evrópu og um hernaðinn í Afganistann.
Bæði hafa þau sýnt gagnkvæma kurteisi fyrstu dagana eftir kosningarnar, Merkel sagði m.a. að hún muni taka á móti Hollande „með útbreiddan faðminn", þá skilur mikið á milli í afstöðu þeirra og gætu orðið átök.
Bæði þykja jarðbundin og alvörugefin
En stjórnmálagreinendur hafa bent á að þótt skoðanir þeirra á stórum málaflokkum séu skiptar, þá gætu persónuleikar þeirra og stjórnunarstíll farið ágætlega saman. Þau þykja um margt líkari en Merkel og Sarkozy. Bæði vilja t.d. gefa sér nægan tíma í viðræður frá öllum sjónarhornum, að sögn þeirra sem til þekkja. Merkel þykir auk þess mjög jarðbundinn og Hollande hefur gefið sig út fyrir að vera „venjulegur forseti" andstætt Sarkozy, sem gagnrýndur var fyrir glamúr.
„Hollande og Merkel eiga mun meira sameiginlegt en ágreiningur þeirra undanfarna mánuði gefur til kynna...bæði eru alvörugefin, gagnrýnin, praktísk í hugsun og laus við alla tilgerð," sagði í þýska dagblaðinu Sueddeutsche Zeitung í dag. Þessar eiginleikar gætu orðið til þess að þeim takist að miðla málum án þess að upp úr sjóði.