Nýr fjármálaráðherra Frakklands, Pierre Moscovici, segir að frönsk stjórnvöld muni ekki staðfesta nýjan efnahagssáttmála, sem kveður á um að settar verði strangari skorður við fjárlagahalla í hverju aðildarríki Evrópusambandsins, ef ekkert verður minnst á aðgerðir til að efla hagvöxt.
Fram kemur á fréttavef CNN að Moscovici telji nauðsynlegt að metnaðarfull áætlun til að efla hagvöxt verði lögð fram.
Í janúar sl. samþykktu 25 af 27 aðildarríkjum ESB nýja efnahagssáttmálann á leiðtogafundi í Brussel.
Þjóðverjar hafa sagt að það komi ekki til greina að semja upp á nýtt.
Moscovici segir að Francois Hollande, forseti Frakklands, geri sér fulla grein fyrir þeim vanda sem Evrópa standi frammi fyrir. Hins vegar muni ríkisstjórn sósíalista standa við gefin kosningaloforð forsetans.