Ratko Mladic, fyrrverandi hershöfðingi í hersveitum Bosníumanna, gaf til kynna með látbragði að hann hygðist skera konu á háls, sem var viðstödd réttarhöldin yfir honum í Haag í gær. Konan staðfesti þetta í samtali við fréttastofu AFP.
Konan heitir Munira Subasic og er ekkja sem missti son sinn, eiginmann og tuttugu aðra fjölskyldumeðlimi í fjöldamorðunum í Srebrenica árið 1995.
„Á einhverju augnabliki leit Mladic í augu almennings. Ég held að hann hafi þekkt okkur, konurnar frá Srebrenica og framkvæmdi þá látbragð sem táknaði „Ég mun skera ykkur á háls“,“ sagði Subasic.
Subasic fer fyrir samtökunum „Mæður Srebrenica“, sem gæta hagsmuna ekkna og fórnarlamba fjöldamorðanna í Srebrenica. 8.000 múslimar, karlar og drengir, voru myrtir af hersveitum Mladic í júlí árið 1995.
„Þá beindi ég látbragði til hans sem táknaði að hann væri í handjárnum. Hann brást við en enginn heyrði það. Við hófum þá að æpa á hann „slátrari!“ og „glæpamaður!“,“ sagði Subasic, sem fylgdist með réttarhöldunum.
Nerma Jelacic, talsmaður Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í málefnum fyrrverandi Júgóslavíu, sagði í viðtali við serbneska fjölmiðla að „samskipti“ hefðu átt sér stað milli varnaraðila og fólks sem fylgdist með réttarhöldunum.
„En ég get ekki staðfest hvað gerðist nákvæmlega,“ sagði hún.
„Dómari sagði okkur að veita honum ekki athygli og sagði Mladic jafnframt að einbeita sér að réttarhöldunum,“ sagði Subasic.
Fjölmiðlamaður í salnum staðfesti síðar að Mladic hefði beint látbragði sínu að konum frá Srebrenica í salnum. Annað vitni tók undir orð hans.
„Hann innti látbragð af hendi sem þýddi „Ég mun skera ykkur á háls að nýju“,“ sagði Zijo Smajlovic.
„Hefur ekkert breyst“
Subasic sagði jafnframt að Mladic væri „glæpamaður sem hefði ekki breyst“.
„Það skín úr augum hans. Hann sér ekki eftir neinu. En Guði sé lof er hann nú í fangelsi og ekki lengur valdhafi lífs og dauða,“ sagði hún.
Mladic er sjötugur og hlutverk hans í Bosníustríðinu á árunum 1992-1995 kristallast nú í ellefu ákæruliðum honum á hendur. Hann hefur m.a. verið ákærður fyrir alvarlegustu brotin sem fyrirfinnast í alþjóðalögum; þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Um 100.000 manns létust í stríðinu og 2,2 milljónir manna misstu heimili sín.