Sænskur blaðamaður á götublaðinu Expressen hefur verið dæmdur fyrir kaup á ólöglegu skotvopni en hann keypti byssu er hann vann að fréttaskýringum um markað með ólögleg vopn í Svíþjóð. Ritstjóri blaðsins og fréttastjóri eru dæmdir fyrir að hvetja til lögbrots. Fengu þeir allir þrír skilorðsbundna dóma.
Fréttin sem um ræðir var birt árið 2010 eftir að þrír höfðu verið skotnir til bana í Malmö. Blaðamaðurinn Diamant Salihu fór á stúfana og átti ekki í neinum vandræðum með að kaupa hálfsjálfvirkt skotvopn.
Hann afhenti lögreglunni byssuna strax að kaupunum loknum.
Blaðamaðurinn, ritstjórinn og fréttastjórinn ætla að áfrýja dómnum.