Fjölskylda andófsmanns barin til óbóta

Chen Guangcheng
Chen Guangcheng AFP

Bróðir kínverska andófsmannsins Chens Guangchengs var pyntaður af yfirvöldum í þrjá daga til þess að reyna að fá hann til að upplýsa hvernig Chen slapp úr stofufangelsi í síðasta mánuði.

Chen Guangfu segir í viðtali við tímarit í Hong Kong að hann hafi verið hlekkjaður við stól í þrjá sólarhringa og barinn ítrekað af lögreglu. Sonur hans, Chen Kegui, er á sama tíma ákærður fyrir morðtilraun en hann reyndi að verja sig þegar brotist var inn á heimili hans og hann krafinn sagna um flótta frænda síns.

Á vef breska blaðsins Guardian kemur fram að hópur lögfræðinga hafi boðist til þess að verja Chen Kegui en stjórnvöld í Kína hafi synjað ósk þeirra og þeim sagt að tjá sig ekki um málið.

Chen Guangfu segir í viðtali við iSunAffairs.com að lögreglumenn hafi komið á heimili hans eftir að bróðir hans flúði í bandaríska sendiráðið í Peking. „Þeir settu mig á stól, hlekkjuðu fætur mína með járnkeðjum og bundu hendur mínar fyrir aftan bak með handjárnum,“ segir Chen í viðtalinu, sem BBC hefur birt í enskri þýðingu.

Hann segir að þeir hafi þvingað hendur hans upp yfir höfuðið með afli og slegið hann í andlitið. „Þeir spurðu mig fyrst hvort ég vissi um hvað þetta snerist. Ég svaraði „ég veit það ekki“ svo þeir börðu mig og slógu mig í andlitið, samt bara öðrum megin, og þeir tröðkuðu á fótum mínum.“

Eiginkona hans, Ren Zongju, lýsir því í viðtalinu hvernig lögregla réðst á son þeirra. Hún segir að slagsmál hafi byrjað inni á heimilinu og fjölmargir hafi gengið í skrokk á syni hennar. „Andlit hans var blóðugt og einnig fætur. Buxurnar hans voru rifnar,“ segir hún í viðtalinu.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert