Kóngafólk alls staðar að úr heiminum sótti í dag hádegisverð í boði Elísabetar Englandsdrottningar í tilefni af demantsafmæli hennar á valdastóli, eftir 60 ára valdatíð. Meðal gesta var konungurinn af Barein, sem sakaður hefur verið um mannréttindabrot í landi sínu.
Gestalisti drottningar var talsvert umdeildur, en á honum var einnig Mswati III., konungur af Svasílandi. Um 50 manns mótmæltu veislunni fyrir utan Buckingham-höll í dag og gagnrýndu drottningu fyrir að bjóða „einræðiskonungum“ í fögnuðinn.