Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist þess fullviss að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda beri ábyrgð á sprengjutilræði í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í síðustu viku, þar sem tugir manna létu lífið. Ban segir mikið skorta á samstarfsvilja Bashars al-Assads, forseta Sýrlands.
Kofi Annan, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í málefnum Sýrlands, lagði fram friðaráætlun í síðasta mánuði, sem sýrlensk stjórnvöld sögðust ætla að fylgja. Einnig var mælst til þess að vopnahléi yrði komið á, það var samþykkt, en lítið hefur orðið um efndir.
Sýrlensk stjórnvöld hafa sakað al-Qaeda um að skipuleggja árásir og hryðjuverk í landinu undanfarna daga og að þau auki þannig á óöldina í landinu og notfæri sér ástandið. Bandaríkjamenn og Rússar hafa einnig lýst því yfir að líklegt sé að al-Qaeda og önnur herská samtök standi fyrir árásum í Sýrlandi.
Sýrlensk stjórnvöld hafa sent Sameinuðu þjóðunum nöfn 26 Túnisa og Líbíumanna, sem hafa verið teknir höndum í landinu og 20 þeirra hafa viðurkennt að starfa með al-Qaeda.
„Meira en 9.000 manns, kannski 10.000, hafa látist í átökum í landinu undanfarna 15 mánuði,“ sagði Ban í gær á fundi með ungmennum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. „Ástandið er orðið með öllu óviðunandi.“
Hann sagði að það eina sem hefði gengið eftir í friðaráætlun Annans væri að eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna væru nú í landinu og að þeir hefðu þau áhrif að ofbeldi minnkaði. „En ekki nóg, ofbeldið heldur áfram. Við munum þess vegna halda áfram og gera okkar besta til þess að vernda óbreytta borgara,“ sagði Ban.