Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hyggst kanna orðróm þess efnis að erlendir málaliðar hafi barist fyrir hönd stuðningsmanna Múammars Gaddafis í átökunum í Líbíu í fyrra.
Fulltrúar mannréttindaráðsins munu yfirheyra fjölda aðila til að komast að hinu sanna og hafa stjórnvöld í Líbíu samþykkt að starfa með ráðinu.
Faiza Patel, talsmaður mannréttindaráðsins, segir að skoða þurfi starfsemi fyrirtækja sem leigi út fólk til þess að taka þátt í átökum. Slík fyrirtæki sinni oft ráðgjöf á sviði öryggis á alþjóðamarkaði.
„Við verðum að komast að því hvaða hlutverki þessi fyrirtæki gegndu í átökunum í Líbíu og hvaða áhrif íhlutun þeirra hafði á almenn mannréttindi,“ sagði Patel við AFP-fréttastofuna.
Áður hefur verið fullyrt að málaliðar hafi framið fjöldamorð og staðið fyrir pyntingum á átakatímunum í landinu, en það hefur ekki verið staðfest.