G8-leiðtogar funda um evruna

Leiðtogafundur G8-ríkjanna er hafinn í Washington í Bandaríkjunum. Ef að líkum lætur verður evran í aðalhlutverki á fundinum, þ. á m. staðan í Grikklandi. Talið er að Barack Obama og Francois Hollande muni skora á Angelu Merkel að grípa til aðgerða til að örva evruhagkerfið, að því er fram kemur á vef BBC. 

Á fundinum eru saman komnir þjóðarleiðtogar Bandaríkjanna, Þýskalands, Frakklands, Bretlands, Japans, Rússlands, Ítalíu og Kanada. Obama tók á móti þjóðarleiðtogunum seint á föstudagskvöld og ræddu þau meðal annars kjarnorkudeilurnar við Íran og Norður-Kóreu og ófriðinn í Sýrlandi.

Samþykkt var m.a. ályktun um að Norður-Kóreu biði frekari einangrun ef stjórnvöld þar í landi haldi áfram að ögra umheiminum. Þjóðarleiðtogarnir samþykktu einnig að stjórnvöldum í Íran beri að færa sönnur á að kjarnorkuáætlun þeirra sé friðsamleg. Leiðtogarnir voru einnig einhuga um að friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi væri ekki lokið og styðja þyrfti áframhald hennar.

Vandræði evrusvæðisins eru hins vegar talin munu verða ríkjandi viðfangsefni á fundinum í dag. G8-fundinum lýkur í kvöld og munu flestir leiðtoganna þá halda til Chicago þar sem í framhaldinu fer fram stærri ráðstefna Natóríkja á sunnudag og mánudag. Þar verður stríðið í Afganistan helsta mál á dagskrá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert