Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, segir að G8-ríkin muni áfram vinna saman að því að ná stöðugleika og auka hagvöxt í heiminum.
Fundur leiðtoga helstu iðnríkja heims, Bandaríkjanna, Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japan, Kanada og Rússlands, stendur nú yfir í Camp David í Maryland í Bandaríkjunum og verður ástandið á evrusvæðinu helsta umræðuefni fundarins.
Þjóðverjar, sem styðja frekari niðurskurð, verða væntanlega undir þrýstingi á fundinum frá leiðtogum Frakklands og Bandaríkjunum sem styðja aðgerðir til þess að örva hagvöxt.
Eins verður Grikkland og framtíð landsins innan evrusvæðisins til umræðu á fundinum en það er nú rætt í fullri alvöru að Grikkir yfirgefi evruna.
Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, segir afar brýnt að gripið verði til aðgerða vegna kreppunnar á evrusvæðinu. Hvetur hann til þess að bankar verði styrktir og skuldir endurskipulagðar.