Seðlabanki Evrópu gerir ráð fyrir því að Grikkland verði áfram hluti af evru-svæðinu og samkvæmt upplýsingum frá bankanum er ekkert annað í stöðunni. Mikið hefur verið rætt um mögulegt brotthvarf Grikkja af evru-svæðinu en bæði leiðtogar G8 ríkjanna telja að Grikkland eigi að vera áfram í Myntbandalagi Evrópu og samkvæmt áætlunum Seðlabanka Evrópu er ekki reiknað með öðru.
Jörg Asmussen, fulltrúi Þjóðverja í bankastjórn ECB, segir að áætlun A varðandi Grikkland sé sú áætlun sem farið sé eftir. Þar sé gert ráð fyrir því að Grikkir verði áfram hluti evru-svæðisins. Aðspurður um hvort ekki væri til áætlun B segir hann að svo sé ekki en ef áætlun A gangi ekki eftir þá verði að sjálfsögðu gerð ný áætlun.
Asmussen segir að bankinn sé á móti því að létt verði á þeim kröfum sem leiðtogar ESB samþykktu fyrr á þessu ári varðandi halla á rekstri ESB-ríkjanna.