Óttast blóðuga borgarastyrjöld

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því í dag að nú væri ögurstund í friðarumleitunum í Sýrlandi og sagðist hafa af því þungar áhyggur að blóðug borgarastyrjöld brytist út, nái deiluaðilar ekki saman.

Stjórnarhermenn sátu fyrir hópi uppreisnarmanna í úthverfi höfuðborgarinnar Damaskus, króuðu þá af og myrtu þá. Þá skaut stjórnarherinn á hóp almennra borgara sem voru við jarðarför skammt frá borginni og fimm almennir borgarar létu lífið þegar sprengjum var varpað í Homs héraði.

Að auki hafa borist fregnir af átökum víða um landið í dag og fyrir löngu orðið ljóst að vopnahléið, sem komið var á að tilstuðlan Kofis Annans fyrir fimm vikum, er vart meira en að nafninu til.

Átökin í landinu hafa nú breiðst út til nágrannalandsins Líbanon, en átök voru í höfuðborginni Beirút í nótt þar sem fylgismenn og andstæðingar ríkisstjórnar Sýrlands tókust á. Tveir létust og 18 særðust í átökunum.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir bandalagið engin áform hafa um að grípa til hervald í Sýrlandi. „Við fordæmum harðlega framferði sýrlenska hersins gagnvart almenningi,“ sagði Rasmussen í gær. „En NATO hyggst ekki grípa inn í ástandið.“

Ríki NATO hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa haft afskipti af þróun mála í Líbíu, en hunsa algerlega ofbeldið í Sýrlandi.

260 eftirlitsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna eru nú í Sýrlandi, en vera þeirra virðist lítil áhrif hafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert