Foreldrar breskrar stúlku hafa verið ákærðir fyrir að kæfa dóttur sína með því að troða plastpoka upp í hana og kæfa hana. Fjögur börn þeirra horfðu upp á systur sína myrta, en í dag lýsti eitt þeirra fyrir dómi því sem gerðist þegar stúlkan lést.
Foreldrar stúlkunnar eru af pakistönskum uppruna. Þau höfðu áformað að gifta 17 ára dóttur sína, Shafilea, frænda sínum í Pakistan. Hún hafnað alfarið að giftast manninum. Nokkrum mánuðum áður en hún lést var hún flutt á sjúkrahús eftir að hafa reynt að taka eigið líf með því að drekka bleikingarefni.
Iftikhar Ahmed og kona hans, Farzana, eru ákærð fyrir að hafa í september 2003 troðið plastpoka upp í dóttur sína og haldið höndum fyrir nef hennar og munn þar til hún kafnaði. Yngri börn þeirra horfðu upp á það sem gerðist.
Líkamsleifar Shafilea fundust í Cumbrian-ánni í febrúar 2004. Alesha, yngri systir hennar, sagði ekki frá því sem gerðist fyrr en hún var handtekin árið 2010 fyrir þjófnað.
Alesha, sem er 23 ára í dag, sagði í réttarhaldi í dag að hún hefði horft upp á foreldra sína kæfa systur sína. Hún sagðist síðar um daginn hafa séð móður sína í eldhúsinu þar sem hún var að sníða niður rúmföt. Hún segist hafa séð móður sína og föður halda á pökkum út í bíl. Hún segist síðar hafa heyrt bíl ekið á brott.
Saksóknari telur að foreldrar Shafilea hafi sundurlimað líkið og varpað því í ána. Hann sagði engan vafa leika á að foreldrarnir hefðu hótað Alesha, m.a. að eins færi fyrir henni ef hún kjaftaði frá.
Í réttarhaldinu kom fram að Iftikhar Ahmed hafði árið 1986 kvænst skandinavískri konu og eignast með henni son. Hann hafi síðar slitið sambandi við hana og gifst núverandi eiginkonu sinni vegna þrýsting frá fjölskyldu sinni.