Evruskuldabréf aftur á dagskrá

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar innan skamms að setja fram áætlanir um að breyta sambandinu í efnahagslegt og pólitískt samband (e. economic and political union) sem sé að hennar mati nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að setja á laggirnar evruskuldabréf sem evruríkin tækju sameiginlega ábyrgð á.

„Við þurfum að velta fyrir okkur hvers konar Evrópusamband á þurfi að halda til þess að dýpka efnahagslegan og pólitískan samruna, til að mynda til þess að sameiginleg útgáfa á skuldabréfum gæti gengið fyrir öll þau aðildarríki sem deila sameiginlega gjaldmiðlinum,“ er haft eftir Olli Rehn, yfirmanni efnahagsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á fréttavefnum Euobserver.com.

Rehn sagði við þingmenn á Evrópuþinginu í gær að framkvæmdastjórnin myndi bráðlega leggja fram áætlun til lengri og skemmri tíma þar sem lögð væri áhersla á nauðsyn dýpri fjármálalegs og efnahagslegs samruna sem myndu draga úr áhættunni á því að einstök evruríki söfnuðu skuldum í trausti þess að einhver annar þyrfti að greiða þær og um leið tryggja „fjárhagslega sjálfbærni“.

Fram kemur í fréttinni að með yfirlýsingu sinni hafi Rehn sett umræðuna um evruskuldabréf aftur á dagskrá en framkvæmdastjórnin hafi fyrst vakið máls á þeim í nóvember á síðasta ári. Þá hafi þýsk stjórnvöld brugðist ókvæða við og skotið hugmyndina í kaf en þýskir ráðamenn hafa lagt áherslu á að forsenda evruskuldabréfa sé meðal annars sú að fyrst verði komið á nauðsynlegum fjármálalegum aga á evrusvæðinu.

Síðan í nóvember hafi hins vegar ýmislegt breyst og þá fyrst og fremst það að nýr forseti hafi tekið við völdum í Frakklandi, Francois Hollande, sem sé jákvæður fyrir því að komið verði á laggirnar evruskuldabréfum en hann mun hafa rætt um þau við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á fundi leiðtoga Evrópusambandsins sem fram fór í Brussel í dag.

Olli Rehn, yfirmaður efnahagsmála í framkvæmdastjórn ESB.
Olli Rehn, yfirmaður efnahagsmála í framkvæmdastjórn ESB. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert