Lögreglan í Bakú stöðvaði fyrr í dag mótmæli við höfuðstöðvar ríkissjónvarpsins í landinu, framkvæmdaaðila Evróvisjón 2012. Er þetta í annað sinn sem að stjórnvöld stöðva mótmæli í vikunni en fyrra skiptið var á mánudag, sama kvöld og fyrri forkeppni Evróvisjón fór fram.
Um 30 - 35 manns hafa verið handteknir samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar. Mótmælendur héldu á lofti skiltum þar sem yfirráðum forsetans, Ilham Aliyev, yfir fjölmiðlum landsins var harðlega mótmælt en fréttir af ræðum hans, ferðum og verkum þykja afar fyrirferðamiklar.
Á meðan Aserbadjan hugðist nýta athyglina vegna Evróvisjón 2012 til landkynningar á alþjóðavísu hefur kastljósið ekki síður beinst að mannréttindabrotum í landinu en stjórn Aliyev forseta hefur verið ásökuð um að fangelsa andstæðinga, ásækja blaðamenn og kæfa málfrelsi. Á miðvikudag var t.d. greint frá því að sænski keppandinn, Loreen, sem þykir sigurstrangleg í keppninni í ár, hitti mannréttindafrömuði í Bakú.
Stjórnvöld í Azerbadsjan hafa fordæmt þessa stjórnmálavæðingu Söngvakeppninnar og hafa hvatt Evrópusamtök útvarpsstöð (EBU), bakhjarls Evróvisjón, til að hafa áhrif á umræðuna.
Alþjóðasamband blaðamanna( IFJ) hefur sent frá sér áskorun til evrópskra blaðamanna um að beina kastljósinu að fjölmiðlafrelsi og slæmri meðferð blaðamanna í Aserbaídsjan í tilefni af Söngvakeppni evrópskra sjónarvarpsstöðva. Greint er frá þessu á vef Blaðamannafélags Íslands.
„Blaða- og fréttamenn hvaðan æva úr Evrópu, sem nú streyma til Bakú til að fjalla um vinsælasta tónlistarviðburð álfunnar ættu einnig að beina kastljósi sínu að meðferð gestgjafanna á kollegum þeirra í Azeraijan,” segir Beth Costa, framkvæmdastjóri IFJ.
Enn er óupplýst morðið á blaðamanninum Rafig Tagi frá í nóvember 2011 og um sex blaðamenn eru annað hvort í fangelsi eða á leiðinni þangað. Blaðamannfélag Aserbaídsjan (JUHI) hefur nú ýtt úr vör átaki gegn vaxandi ofbeldi gegn starfsfólki fjölmiðla og hefur félagið nefnt um 30 ólík mál í því sambandi á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs.
Þessu átaki, sem stutt er af fleiri samtökum fjölmiðlafólks í landinu, var hrint af stað í kjölfar barsmíða öryggisvarða ríkisolíufyrirtækisins á þremur blaðamönnum sem voru á vettvangi að fjalla um mótmæli íbúa gegn því að fyrirtækið væri að rífa hús þeirra á nýju byggingasvæði. Blaðamennirnir máttu sæta miklu ofbeldi og einn þeirra hlaut af varanlegan skaða, en ekkert hefur verið gert í því að rannsaka barsmíðarnar.
Líkamlegt ofbeldi gegn fjölmiðlamönnum er ekki nýtt af nálinni í Aserbaídsjan, en nú hafa bæst við nýjar og útsmognari leiðir til að eyðileggja starfsferla sjálfstæðra blaðamanna.
Þetta kom m.a. fram nú í mars þegar reynt var að hóta rannsóknarblaðakonunni Khadija Ismayilova og þegar það gekk ekki varð hún fórnarlamb ófrægingarherferðar í fjölmiðlum sem stjórnvöld hafa í vasa sínum.
Khadija Ismayilova gerði hótanirnar opinberar í mars eftir að hún hafði fengið sendar í pósti myndir af sér við mjög persónulegum athöfnum, og myndunum fylgdu skilaboð um að hún ætti að „hegða sér almennilega” eða þá að hún yrði „niðurlægð”.
Í kjölfarið voru svo sett á netið myndskeið af henni og félaga hennar í ástarathöfnum sem tekin höfðu verið með falinni myndavél. Í framhaldinu kom svo ófrægingarumfjöllun um hana í stjórnarmiðlum, m.a. flokksblaði stjórnarflokksins, Yeni Aserbaídsjan, að því er segir á vef Blaðamannafélags Íslands.