Mikill meirihluti Þjóðverja telur Ísrael vera „árásargjarnt“ og telja að Þýskaland hafi ekki lengur sérstökum skyldum að gegna gagnvart landinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birt var í dag en hún var gerð í tilefni af fyrirhugaðri opinberri heimsókn forseta Þýskalands, Joachim Gauck, til Ísraels 28. til 30. maí næstkomandi.
Skoðanakönnunin var gerð af fyrirtækinu Forsa fyrir þýska tímaritið Stern en þar kom fram að 59% aðspurðra teldu Ísrael árásargjarnt og hefur þeim fjölgað um 10% frá hliðstæðri könnun í janúar 2009. Þá sögðust 70% telja að Ísrael leitaðist við að verja hagsmuni sína án tillits til annarra þjóða sem er 11% aukning frá 2009.
Ennfremur sögðust 60% telja að Þýskaland hefði ekki lengur neinum sérstökum skyldum að gegna gagnvar Ísrael á meðan þriðjungur taldi svo enn vera samkvæmt könnuninni sem náði til rúmlega eitt þúsund manns og var gerð dagana 15. og 16. maí síðastliðinn.