Forsætisráðherra Finnlands, Jyrki Katainen, hafnaði því alfarið í umræðum í finnska þinginu í dag að tillaga um að Finnar tækju þátt í norrænu samstarfi við að gæta lofthelgi Íslands væri hugsuð til þess að koma Finnlandi inn í Atlantshafsbandalagið (NATO).
Fram kemur á finnska fréttavefnum Yle.fi að stjórnarandstöðuþingmenn hafi gert harða hríð að Katainen vegna málsins en finnsk stjórnvöld hafi lýst sig reiðubúin til þátttöku í verkefninu ef öll hin norrænu ríkin gerðu slíkt hið sama.
Katainen sagði að markmiðið með verkefninu væri að stuðla að nánara samstarfi ríkja við Norður-Atlantshaf og á Norðurlöndunum en ekki að koma á hernaðarbandalagi við NATO eins og stjórnarandstæðingar gerðu skóna að.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu meðal annars að því hvaða áhrif þátttakan kynni að hafa á utanríkisstefnu Finnlands og hvernig Rússar kynnu að bregðast við henni. Katainen svaraði á þá leið að Finnar tækju eigin ákvarðanir í þeim efnum.
Katainen gat ekki upplýst hvenær til stæði að hefja umrætt verkefni en að málið yrði sennilega lagt fyrir utanríkis- og varnarmálanefnd finnska þingsins í haust.