Stríðsglæpamaður, sem dæmdur hafði verið í lífstíðarfangelsi en flýði síðan til Þýskalands og fékk þýskan ríkisborgarrarétt, lést síðastliðinn fimmtudag níræður að aldri. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC segir frá þessu í dag.
Maðurinn, Klaas Carel Faber, var í hinum illræmdu SS-sveitum nasista í síðari heimsstyrjöldinni en hann fæddist í Hollandi. Að styrjöldinni lokinni var Faber dæmdur til dauða árið 1947 fyrir morð á 22 gyðingum í Westerbrok-fangabúðunum í Hollandi. Dómnum var síðan breytt í lífstíðarfangelsi.
Faber flýði hins vegar úr fangelsinu þar sem hann var vistaður árið 1952 og komst yfir til Þýskalands þar sem honum var veittur þýskur ríkisborgararéttur. Þegar hann lést var hann annar á lista Simon Wiesenthal-stofnunarinnar yfir eftirlýsta stríðsglæpamenn nasista.
Læknir á sjúkrahúsi í bænum Ingolstadt í suðurhluta Bæjaralands þar sem Faber hafði búið staðfesti að hann væri látinn en dánarorsökin er talin hafa verið nýrnabilun.
Fjölmargar tilraunir höfðu verið gerðar til þess að rétta yfir Faber í Þýskalandi eða fá hann framseldan vegna stríðsglæpa hans en án árangurs þar sem Þjóðverjar neituðu því á þeim forsendum að hann væri þýskur ríkisborgari.