Mótmælandi komst inn í sal þar sem yfirheyrslur yfir Tony Blair fóru fram

Mótmæli
Mótmæli

Mótmælandi komst inn í sal þar sem yfirheyrslur yfir Tony Blair fóru fram fyrir rannsóknanefnd um spillingu í bresku þjóðlífi og ásakaði forsætisráðherrann fyrrverandi um stríðsglæpi.

Mótmælandinn komst mjög nærri viðstöddum og stóð meðal annars spölkorn frá Justice Leveson sem stýrir rannsókninni.

„Afsakið. Þennan mann ætti að ákæra fyrir stríðsglæpi. JP Morgan borgaði honum fyrir Íraksstríðið; þremur mánuðum eftir að við (Bretar) réðumst inn í Írak,“ sagði hinn 49 ára gamli David Lawley-Wakelin. Hann sagði jafnframt að Blair fengi enn milljónir punda fyrir aðild sína að stríðinu.

Öryggisverðir yfirbuguðu Lawley-Wakelin fljótlega og drógu hann úr salnum þar sem yfirheyrslurnar yfir Blair fóru fram.

Eftir atvikið stóð Leveson nær agndofa en afsakaði svo atvikið. Hann hefur fyrirskipað rannsókn á því hvers vegna maðurinn komst svo nærri viðstöddum.

Þegar verið var að draga Lawley-Wakelin í burtu sagði hann við fjölmiðla að hann væri heimildamyndagerðamaður sem hefði gert mynd um  stríðið í Írak.

Hann hefur áður látið þá skoðun sína í ljós í breskum fjölmiðlum að hann telji Blair vera „lygara“ sem tilbúinn sé að „drepa fyrir olíu“.

74 öryggisverðir voru staddir í og við bygginguna þar sem yfirheyrslurnar fara fram þegar Lawley-Wakelin birtist meðal rannsóknarnefndarmanna og hóf ásakanirnar á hendur Blair. Hann var handtekinn í kjölfar atviksins.

Blair lét af embætti árið 2007 en hefur margsinnis orðið fyrir barðinu á mótmælendum Íraksstríðsins frá þeim tíma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert