Forsætisráðherra líkti fóstureyðingum við morð

Tayyip Erdogan.
Tayyip Erdogan. UMIT BEKTAS

Nokkur hundruð konur ætla á morgun að koma saman í Tyrklandi og mótmæla ummælum forsætisráðherrans Tayyip Erdogan. Hann líkti fóstureyðingum við morð og hafa baráttumenn fyrir réttindum kvenna í landinu kallað hann „óvin kvenna“.

Fulltrúar kvenréttindasamtaka munu þá einnig funda með félagsmálaráðherranum Fatma Sahin sem lýsti yfir stuðningi við Erdogan.

Erdogan sagði á fundi á föstudaginn að hann teldi fóstureyðingar vera lið í samsæri um að draga úr hagvexti í landinu. Hann hvatti konur til að nýta ekki rétt sinn til fóstureyðinga. „Annað hvort drepið þið barn í legi móðurinnar eða þið drepið það eftir fæðingu. Það er enginn munur þar á.“ Fjöldi kvenna mótmælti ummælunum í Istanbúl um helgina og mátti sjá spjöld þar sem á stóð: „Kemur rétturinn til fóstureyðinga forsætisráðherranum við?“ og „Þetta er legið okkar, við ráðum hvort við förum í fóstureyðingu eða eigum barnið með keisaraskurði,“ en Erdogan ku einnig vera lítill aðdáandi þess síðarnefnda.

Kvenréttindasamtök eru óánægð með að Erdogan sé að gera líkama kvenna að pólitísku baráttumáli. Ýmis önnur mál er snerti konur séu brýnari. „Keisaraskurðir og fóstureyðingar eru leyfilegar í Tyrklandi. Tilraun forsætisráðherrans til að breyta gangi mála í landinu með því að ráðast gegn konum  er mikil mistök. Hann hefði frekar átt að tala um atvinnuleysi meðal kvenna, heimilisofbeldi eða hversu litla hlutdeild þær hafa í tyrkneskum stjórnmálum,“ segir formaður einna samtakanna.

Erdogan hefur ítrekað hvatt tyrkneskar konur til að eignast a.m.k. þrjú börn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka