Bandarískir og s-kóreskir sérsveitarmenn hafa verið sendir inn fyrir landamæri N-Kóreu til að afla upplýsinga. Þeir létu sig falla til jarðar með fallhlífum. Þetta sagði bandarískur herforingi á ráðstefnu í Flórída í síðustu viku.
Bandarískir fjölmiðlar hafa í dag fjallað um ræðu sem Neil Tolley hélt á ráðstefnunni. Hann sagði að stjórnin í Pyongyang hefði byggt mörg þúsund jarðgöng. Þessi göng hefðu öll verið byggð eftir Kóreustríðið sem var háð um miðja síðustu öld.
„Þessi göng sjást ekki á gervihnattarmyndum,“ sagði Tolleu. „Svo við sendum s-kóreska og bandaríska hermenn til N-Kóreu til gera sérstaka könnun.“
Tolley segir að Bandaríkjamenn hafi enn ekki fulla yfirsýn yfir umfang og getu þessara neðanjarðarmannvirkja. Hann segir að sérsveitarmennirnir sem sendir voru inn fyrir landamæri N-Kóreu hafi verið með lítinn búnað með sér og reynt hafi verið að standa þannig að málum að litlar líkur væru á að hermenn N-Kóreu rækjust á þá.