Reykingamenn öskureiðir

Nú er bannað að reykja á börum í Búlgaríu.
Nú er bannað að reykja á börum í Búlgaríu. Reuters

Í dag tekur reykingabann á veitingastöðum og börum gildi í Búlgaríu en reykingar eru næst algengastar þar í landi í allri Evrópu á eftir Grikklandi. Bannið nær einnig til allra opinberra bygginga, þar með talið skólalóða og leiksvæða utandyra. Reykingamenn eru öskureiðir yfir banninu og segja lagasetninguna hræsni af hálfu stjórnvalda.

Þeir sem brjóta gegn reykingabanninu eiga yfir höfði sér 153-255 evra sekt, sem nemur 24-41 þúsund íslenskum krónum.

Hingað til hafa verið sérstök reykingasvæði á veitingahúsum og börum en það er nú liðin tíð.

„Hver sá sem reykir inni á veitingastað eða bar í dag er dóni,“ segir forsætisráðherrann Boyko Borisov.

Reykingamenn eru ekki allir á eitt sáttir um bannið og telja það sýna hræsni. „Þetta er ömurlegt! Mér finnst ég beitt miklu misrétti,“ segir Angelina Metodieva þar sem hún stendur reykjandi fyrir utan litla kaffihúsið sem hún rekur í höfuðborginni Sofiu. „Ég vinn hérna ein og trufla engan með reykingum.“

Og vinkona hennar er ekki síður reið. „Ef kaup á tóbaki eru lögleg ætti að vera löglegt að reykja,“ segir Ivelina Atanasova.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert