Stóri Ben verði Turn Elísabetar

Stóri Ben eða Turn Elísabetar.
Stóri Ben eða Turn Elísabetar. Reuters

Klukkuturninn við þinghúsið í London, sem allir þekkja undir nafninu Stóri Ben (e. Big Ben), þó svo Stóri Ben sé aðeins bjallan í turninum, kemur til með bera nafn Elísabetar Bretlandsdrottningar, samkvæmt því sem götublaðið Daily Mail greinir frá. Í tilefni af 60 ára krýningarafmælinu stendur til að nefna turninn Turn Elísabetar (e. Elizabeth Tower).

Blaðið segir að forsætisráðherrann David Cameron sé á meðal 331 þingmanna sem hafa skrifað upp á tillögu þess efnis, að heiðra drottninguna og krýningarafmælið með nafngiftinni. „Það eru frábærar fréttir að svo margir þingmenn breska þingsins skuli styðja tillöguna sem er réttmæt leið til að heiðra drottninguna. Ég vonast til að málið gangi í gegn,“ hefur Daily Mail eftir Cameron.

Nokkrir mánuðir eru síðan Stóri Ben komst síðast í fréttirnar en þingmannanefnd á breska þinginu fundaði um það í janúar hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að klukkuturninn hallist frekar. Turninn var reistur um miðja 19. öld, og nú er svo komið að efsti hlutinn á turnspírunni er nærri hálfan metra frá lóðlínu. Jarðvegurinn undir mannvirkinu mun hafa látið smám saman undan með þessum afleiðingum.

Fjögurra daga frí hjá Bretum

Undirbúningur stendur nú sem hæst fyrir 60 ára krýningarafmæli Elísabetar Bretlandsdrottningar. Hátíðahöldin hefjast formlega á morgun og standa í fjóra daga. Frí verður gefið á vinnustöðum á mánudag og þriðjudag en að auki tóku margir landsmenn sér frí í dag.

Búist er við að um 800 þúsund manns eigi leið um Heathrow flugvöll næstu daga vegna afmælisins. Nýleg rannsókn gefur til kynna að Bretar muni eyða yfir 160 milljörðum króna í minjagripi, matar- og drykkjarföng og ýmislegt fleira til að halda upp á krýningarafmælið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka