Ung kona hefur verið dæmd til dauða fyrir hjúskaparbrot í Súdan að sögn mannréttindasamtaka. Bíður hún nú örlaga sinna í fangelsi en komi til fullnustu dómsins verður konan grýtt til dauða.
Intisar Sharif Abdallah er talin tæplega 20 ára gömul og er henni nú haldið í fangelsi ásamt ungu barni sínu, að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch (HRW) og Amnesty International. Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum í Súdan en landið er eitt sjö landa í heiminum þar sem dauðarefsing með grýtingu er enn í lögum.
Dómum snúið við
Þónokkrar konur hafa verið dæmdar til dauða með grýtingu í landinu á undanförnum árum. Í öllum tilfellum hefur dómnum hins vegar verið breytt í kjölfar áfrýjunar, segir í tilkynningu frá mannréttindasamtökunum. Bent hefur verið á að í miklum meirihluta mála þar sem að um er að ræða hjúskaparbrot og sakborningur er dæmdur til umræddrar refsingar, hafa sakirnar verið bornar á konur. Gefur það sterklega til kynna óréttlæti málsmeðferðarinnar og að eitthvað sé ekki rétt, segir ennfremur í tilkynningunni.
Játaði eftir barsmíðar
Að sögn samtakanna grundvallaðist dómurinn á játningu Abdallah á brotinu en ekki fyrr en eftir barsmíðar fjölskyldumeðlims. Telja mannréttindasamtökin að konan hafi hvorki haft lögfræðing né túlk við réttarhöldin en óvíst er hvort arabíska sé móðurmál hennar.
Krefjast samtökin þess að Súdan láti þegar í stað af dauðarefsingum með grýtingu og fari að alþjóðlegum og afrískum mannréttindalögum. Ennfremur er þess krafist að landið endurskoði lög með fyrir sjónum að útrýma hvers kyns mismunum gegn konum og stúlkum.