Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í dag tölur um aukið atvinnuleysi sýna, að störfum í hagkerfinu sé ekki að fjölga jafn hratt og hann vildi. En hann hét því að bráðum komi betri tíð. „Við komum sterkari til baka,“ sagði hann í ávarpi sínu. „Það eru bjartari dagar framundan.“
Ávarp forsetans eru viðbrögð við tölum sem atvinnumálaráðuneyti hans birti í morgun. Þær sýna að störfum fjölgaði aðeins um 69 þúsund í síðasta mánuði og að atvinnuleysi jókst um 0,1%.
Þegar var ljóst að tölurnar yrðu vopn í höndum keppinauts Obama um forsetastólinn, Mitts Romneys, sem hefur gagnrýnd Obama harðlega í dag. Obama sagði í ávarpi sínu að hindranir væru enn í vegi og vísaði til vandræða á evrusvæðinu og hás eldsneytisverðs en hins vegar væri verið að vinna í málunum, og koma hagkerfinu á þann stað sem það þarf að vera.