Kann að vera glæpur gegn mannkyni

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Navi Pillay, sagði í gær að morð á rúmlega 100 óbreyttum borgurum í borginni Houla í Sýrlandi í vikunni sem leið kynnu að vera glæpur gegn mannkyni. Á meðal þeirra sem voru myrtir voru 49 börn.

Pillay sagði í ræðu á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna að samtökin þyrftu að gera allt sem í valdi þeirra stæði til að „binda enda á refsileysið“ og tryggja að þeir sem fremdu slík grimmdarverk yrðu sóttir til saka.

Stjórnarandstæðingar í Sýrlandi sögðu í gær að vopnaður hópur stuðningsmanna sýrlensku stjórnarinnar hefði framið annað fjöldamorð í fyrradag. Árásarmennirnir hefðu skotið þrettán verkamenn til bana eftir að hafa neytt þá til að fara út úr rútu á leið í verksmiðju nálægt bænum Qusair í vesturhluta landsins.

Engin íhlutun án samþykkis SÞ

Nefnd, sem sýrlenska stjórnin skipaði til að rannsaka manndrápin í Houla, sagði að uppreisnarmenn hefðu framið morðin með það að markmiði að fá erlend ríki til að hefja hernað gegn sýrlensku stjórninni. Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að ekkert væri hæft í þessu, niðurstaðan væri „helber lygi“.

Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að ofbeldið í Sýrlandi væri „óþolandi“ en hernaðaríhlutun kæmi ekki til greina án stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. „Nei, ég get ekki séð það fyrir mér,“ svaraði Panetta þegar hann var spurður hvort Bandaríkjastjórn kynni að styðja hernað gegn stjórn Sýrlands án samþykkis öryggisráðsins.

Frá Houla.
Frá Houla. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert