„Það verður ekki aftur snúið með evruna. Það er aðeins ein leið áfram til frekari samruna. Varðandi það hvað gerist ef okkur mistekst þá ætla ég ekki að svara spurningum byggðum á tilgátum. Okkur mun ekki mistakast,“ sagði Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í St. Pétursborg í Rússlandi í dag.
Rompuy hafði áður ásamt José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, fundað með Vladimir Pútín, forseta Rússlands, um fyrirhugaðan samning um aukna samvinnu á milli Rússa og ESB um efnahagsframfarir.
Á fundinum lögðu þeir van Rompuy og Barroso meðal annars áherslu á það við Pútín að evran væri öruggur fjárfestingakostur þrátt fyrir þá efnahagserfiðleika sem geisað hefðu á evrusvæðinu undanfarin ár.
Van Rompuy sagðist ætla að birta áætlun í lok þessa árs um frekari efnahagssamruna innan ESB samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com og spáði því ennfremur að hagvöxtur á evrusvæðinu yrði á bilinu 1-3% á næsta ári.