Vopnahlé virt að vettugi

Grímuklæddur liðsmaður Frelsishers Sýrlands.
Grímuklæddur liðsmaður Frelsishers Sýrlands. AFP

Frelsisher Sýrlands virðir ekki lengur vopnahléið í landinu. Þetta segir talsmaður uppreisnarhreyfingarinnar, Sami al-Kurdi, í samtali við Reuters-fréttaveituna. Hann segir að uppreisnarmennirnir hafi ráðist á stjórnarhermenn til að verja almenning í landinu.

Að minnsta kosti 80 stjórnarhermenn féllu í árásum uppreisnarmanna um helgina, að sögn hóps aðgerðasinna.

Vopnahléið er hluti af friðaráætlun Kofi Annans, sem er sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins. Haft er eftir eftirlitsmönnum í landinu að vopnahléinu hafi í raun aldrei verið framfylgt í Sýrlandi, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Yfirlýsing Frelsishersins og ummæli sem Bashar al-Assad Sýrlandsforseti lét falla um helgina hafa vakið spurningar um hvort friðaráætlun Annans, sem er í sex liðum, gangi upp.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í dag að sýrlensk stjórnvöld hefðu gerst sek um svo mörg brot að ekki væri lengur hægt að komast að viðvarandi samkomulagi á meðan Assad væri enn við völd.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, hefur aftur á móti ítrekað að áætlun Annas gegni lykilhlutverki til að hægt sé að finna lausn á neyðarástandinu í Sýrlandi.

Alls lét 31 lífið í átökum í Sýrlandi í dag. Flestir féllu fyrir hendi stjórnarhermanna.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, ávarpaði þingið um helgina.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, ávarpaði þingið um helgina. AFP
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, segir að friðaráætlun Annans gegna mikilvægu …
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, segir að friðaráætlun Annans gegna mikilvægu hlutverki. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert