Fréttamaður dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 komst í hann krappann í Kristjaníu í Kaupmannahöfn í gær, en hann hafði þar tekið upp myndefni án þess að biðja leyfis. Fréttamaðurinn hafði tekið myndir af hasssölumönnum, sem voru lítt hrifnir af því og klæddu þeir manninn úr öllum fötunum, tóku af honum myndavélina og hröktu hann síðan á brott.
Að öllu jöfnu eru myndatökur ekki vel séðar í Kristjaníu, sér í lagi ekki þegar myndefnið er sala á fíkniefnum.
Í frétt Jyllands-Posten í dag segir að furðu lostnir vegfarendur hafi mætt fréttamanninum klæðlausa er hann kom á harðahlaupum út um hlið Kristjaníu.
Lögreglu var gert viðvart, en ekki liggur fyrir hvort maðurinn hyggst kæra atvikið.