Forseti Þýskalands „skammast sín“ fyrir fjöldamorðið í Lidice

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, fordæmdi voðaverk nasista í Tékklandi í …
Joachim Gauck, forseti Þýskalands, fordæmdi voðaverk nasista í Tékklandi í dag. THOMAS PETER

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, sagði að hann væri „mjög sorgmæddur“ og fyndi til skammar vegna fjöldamorða í tveimur þorpum í Tékklandi árið 1942. Morðin voru framin til þess að hefna fyrir morðið á Reinhard Heydrich, hátt settum nasistaforingja í síðari heimsstyrjöldnni.

Reinhard Heydrich var einn af helstu hugmyndasmiðunum á bak við helförina, og var landsstjóri Þjóðverja í héruðunum Bæheimi og Mæri, þar sem Tékkland er í dag.  Honum var sýnt banatilræði 27. maí 1942 af tékkneskum andspyrnumönnum sem hlutu skæruliðaþjálfun í Bretlandi. Heydrich lést svo af sárum sínum 4. júní. Nasistar brugðust illa við tilræðinu og ákváðu að í hefndarskyni skyldu tvö þorp, Lidice og Lezaky vera jöfnuð við jörðu. Um 1500 manns voru annaðhvort send í útrýmingarbúðir eða tekin af lífi í aðgerðunum, sem stóðu með hléum fram í október árið 1942.

„Hugsunin ein um þessi grimmilegu hryðjuverk í Lidice og Lezaky veldur mér mikilli sorg og skömm,“ skrifaði Gauck kollega sínum í Tékklandi, Vaclav Klaus. Gauck bætti við að Þjóðverjar væru meðvitaðir um sögulega ábyrgð sína, en um helgina verða 70 ár liðin frá hermdarverkunum. „Við munum aldrei gleyma þessum miskunnarlausu glæpum og þeim ólýsanlegu þjáningum sem Þjóðverjar frömdu gegn mönnum, konum og börnum í Lidice og Lezaky,“ sagði Gauck og hrósaði tilræðismönnum Heydrichs fyrir hugrekki sitt. Klaus þakkaði Gauck fyrir bréfið og sagði að það væri sterk fordæming á hinu hörmulega hernámi Þjóðverja og þeim glæpum sem þeir hefðu framið í Tékklandi í stríðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert