Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði að Grikkir yrðu að standa betri skil á sköttum sínum, því það gæti verið lausnin á efnahagsvanda Grikklands. Þetta segir helsti skattrannsóknarmaður Grikkja.
„Ég er algerlega sammála Lagarde,“ sagði skattrannsóknarmaðurinn, Nikos Lekkas, í samtali við þýska dagblaðið Die Welt.
„Skattsvik Grikkja nema 12-15% af árlegri þjóðarframleiðslu. Það eru 40-45 milljarðar evra á hverju ári og ef við gætum náð inn þó ekki væri nema helmingnum af þessari upphæð væri búið að leysa vanda Grikkja,“ sagði Lekkas.
Hann sagði að til að svo mætti verða þyrfti pólitískan vilja. „Stjórnmálamennirnir okkar eru að byrja að átta sig á þessu,“ sagði hann.
Ummæli sem Lagarde lét falla í viðtali við Lundúnablaðið The Guardian í síðasta mánuði, þar sem hún sagðist hafa litla samúð með grískum almenningi þar sem skattsvik væru þar algeng, vöktu mikla reiði Grikkja. Í viðtalinu sagði hún meðal annars að Grikkir gætu vel hjálpað sér sjálfir með því að standa skil á sköttum sínum og sagðist hafa meiri áhyggjur af sveltandi börnum í Afríku.