Virða fyrir sér eyðilegginguna í Al-Kubeir

Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi komust loks til þorpsins Al-Kubeir í dag þar sem fjöldamorð var framið sl. miðvikudag. Að minnsta kosti 55 létust í árás stjórnarhermanna. Vesturveldin þrýsta nú á SÞ að samþykkja að beita sýrlensk stjórnvöld refsiagerðum.

Í gær var skotið á eftirlitsmennina þegar þeir reyndu að komast til þorpsins. Þeir komust loks í dag að sögn Martin Nesirky, talsmanns SÞ.

Kofi Annan, sendifulltrúi SÞ og Arababandalagsins, hefur kallað eftir því að þrýstingurinn á stjórnvöld í Damaskus verði aukinn í kjölfar voðaverkanna í Al-Kubeir. Annan hitti Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington, þar sem staðan í Sýrlandi var rædd.

Aðgerðarsinninn segir í samtali við AFP-fréttaveituna að eftirlitsmennirnir hafi fyrst farið til þorpsins Maarzaf þar sem fórnarlömbin voru borin til grafar. Í framhaldinu héldu þeir til Al-Kubeir til að virða eyðilegginguna fyrir sér.

Fréttaskýrandi BBC, sem er með eftirlitsmönnunum í för, segist hafa séð líkamsleifar í húsum í Al-Kubeir. Enginn hafi fundist á lífi og þá finni menn sterka lykt af brenndu holdi. Hann hefur eftir aðgerðasinnum að stjórnarhermenn hafi fjarlægt öll lík á meðan komið var í veg fyrir að eftirlitsmennirnir gætu komist til þorpsins.

Hann segist hafa séð líkamsleifar og blóð á svæðinu. Þá sé eyðileggingin mikil.

„Hver sá sem stóð að baki þessu hefur framið hugsunarlaus ofbeldisverk en tilraunir til að fela grimmdarverkin eru þaulhugsuð,“ segir fréttamaðurinn Paul Danahar.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, sagði á fundi öryggisráðs SÞ að útlit væri fyrir að hermenn hefðu umkringt Al-Kubeir. Vopnaðir menn hefðu svo farið inn í bæinn og stráfellt íbúana með villimannlegum aðferðum.

Stjórnvöld í Sýrlandi vísa öllum ásökunum á bug. Þau halda því fram að hryðjuverkamenn, sem njóta stuðnings erlendra ríkja, standi á bak við ofbeldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert