Tollayfirvöld í Finnlandi hafa lagt hald á um 10.000 egg sem var stolið í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Íslandi. Þá lögðu tollverðir einnig hald á 300 dauða fugla sem fundust hjá manni í Austurbotni í Finnlandi.
Um er að ræða egg sjaldgæfra fugla eða fugla í útrýmingarhættu. Er talið að safnarar hafi verið tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir eggin.
Fram kemur í norskum fjölmiðlum að fuglanir sem fundust hafi annað hvort verið frosnir eða uppstoppaðir.
Lögreglan segir málið teygja anga sína víða um Norðurlönd og þetta hafi gerst á mörgum árum. Fleiri eru grunaðir um að tengjast eggja- og fuglasmyglinu.
Finnska lögreglan lét til skarar skríða eftir að hafa fengið ábendingu frá starfsbræðrum sínum í Svíþjóð.