Hamid Karzai, forseti Afganistans, segir að yfirmaður hersveita NATO í landinu hafi heitið því að að stöðva allar loftárásir við íbúahverfi eftir að hann baðst afsökunar á því að saklausir borgarar hefðu fallið í slíkri árás.
Karzai átti fund með hershöfðingjanum John Allen, sem er yfirmaður 130 þúsund manna herliðs Atlantshafsbandalagsins í landinu, og bandaríska sendiherranum Ryan Crocker eftir árás sem var gerð í Logar héraði landsins. Afganskir embættismenn segja að 18 saklausir borgarar hafi fallið þar í loftárás NATO.
Karzai segir að Allen hafi enn einu sinni beðist afsökunar á mannfalli úr röðum óbreyttra borgara. Þá segir forsetinn að hershöfðinginn hafi lofað að gera ekki loftárásir á íbúahverfi.
Fram kemur í yfirlýsingu frá forsetanum að Allen hafi orðið við þessum kröfum og sagt að NATO muni alfarið hætta slíkum aðgerðum.