„Þetta er ekki björgun“

„Þetta er engin björgun,“ sagði Luis de Guindos, efnahagsráðherra Spánar, í dag þegar hann greindi frá því að Spánn mundi fá 100 milljarða evra lán úr neyðarsjóði evrusvæðisins.

„Þetta er lán á afar hagstæðum kjörum, sem verður frágengið innan fárra daga. En þau eru afar hagstæð - mun hagstæðari en gengur og gerist á mörkuðum,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag.

Tilgangur lánsins er að styrkja bankakerfi landsins sem hefur staðið höllum fæti. Ákvörðunin var tekin á neyðarfundi fjármálaráðherra evrusvæðisins í dag.

Guindos sagði í dag að Spánn myndi brátt fara fram á lánið með formlegum hætti. Þá lagði hann á það áherslu að þetta væri aðstoð við fjármálakerfið, ekki allt efnahagslíf landsins.

Ríkisstjórn Spánar hefur verið treg til að óska eftir aðstoð líkt og Grikkir, Írar og Portúgalir hafa gert með tilheyrandi skilyrðum um skattahækkanir og niðurskurð í ríkisútgjöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert