Bondevik meinað að fara til Kína

Kjell Magne Bondevik, fyrrum forsætisráðherra Noregs
Kjell Magne Bondevik, fyrrum forsætisráðherra Noregs

Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur verið neitað um vegabréfsáritun til Kína. Höfnunin er talin vera liður í milliríkjadeilu sem átti sér stað við afhendingu friðarverðlauna Nóbels árið 2010. 

Bondevik, sem var forsætisráðherra frá 1997-2000 og 2001 til 2005, átti að vera gestur á fyrirlestri á vegum heimsráðs kirkna (WCC) í vikunni, en var tjáð fyrir helgi að hann fengi ekki inngöngu í Kína, samkvæmt tilkynningu frá norska utanríkisráðuneytinu. Bondevik mun hafa verið sá eini í 30 manna hópi sem ætlaði á fyrirlesturinn sem ekki fékk vegabréfsáritun, og hafa norsk stjórnvöld kvartað til kínverskra stjórnarherra. 

Bondevik sagði við Aftenposten að honum fyndist þetta óheppilegt, en að fundurinn myndi örugglega ganga vel án hans. Hann sagðist geta vottað til um að Kínverjar væru enn fastir við sinn keip, tveimur árum eftir að kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo voru afhent Nóbelsverðlaunin. Bondevik sagðist ekki hafa fengið neina útskýringu fyrir höfnuninni aðra en þá að sendiráð Kínverja í Ósló sagðist ekki hafa fengið nauðsynleg leyfi frá Peking. „Ég átti engan þátt í því að Liu Xiaobo fékk verðlaunin, en kannski hafa kínversk yfirvöld lesið að ég talaði á jákvæðum nótum um útnefningu hans,“ sagði Bondevik. 

Ekki hefur náðst í kínverska sendiráðið í Ósló. Samskipti Noregs og Kína hafa verið köld síðan tilkynnt var í október 2010 að friðarverðlaun Nóbels hefðu fallið í skaut Liu Xiaobo, andófsmanns í Kína sem er enn í fangelsi þar í landi. Yfirvöld í Kína hafa neitað að eiga í samskiptum á efstu stigum við Noreg til þess að mótmæla útnefningunni, sem þau kölluðu „farsa“ og afskiptasemi af innanríkismálum Kína. Þrátt fyrir að nefndin sem ákveði friðarverðlaunin sé sjálfstæð frá norskum stjórnvöldum hefur ýmsum á vegum norskra stjórnvalda verið meinað að koma til landsins síðan, þar á meðal tveimur þingnefndum.

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, sagðist vera gáttaður á þessari ákvörðun Kínverja, og að engum öðrum fyrrverandi forsætisráðherra Noregs hefði verið neitað um vegabréfsáritun til Kína. Hins vegar væri að koma í ljós ákveðið mynstur: „Aðeins of mörgum einstaklingum hefur verið meinað að fara til Kína.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka