Börn í Sýrlandi eru pyntuð og þau notuð sem hlífðarskildir á skriðdrekum í stríði sem nú geisar í landinu. Séu börn á skriðdreka er ólíklegra að andstæðingarnir geri árás á hann.
Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna hafa verið í Sýrlandi undanfarna daga og með í för m.a. fréttaritari BBC sem segir frá sinni reynslu í fréttum af ástandinu.
Samkvæmt niðurstöðum Sameinuðu þjóðanna eru börnin tekin höndum, þau pyntuð og myrt. Talið er að stuðningsmenn og herir stjórnarinnar beiti börnum markvisst í stríðinu en einnig segir í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að uppreisnarmenn noti börn með sambærilegum hætti.
Bandaríkjamenn hafa ásakað sýrlensk stjórnvöld um að skipuleggja annað fjöldamorð en tvær grimmdarlegar árásir á saklausa borgara undanfarna daga hafa vakið heimsathygli enda féllu mörg börn fyrir hendi vígamanna.
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir í samtali við BBC að ástandið í Sýrlandi sé hrikalegt. Fulltrúinn, Radhika Coomaraswamy, hafi aldrei upplifað að börnum sé ekki hlíft í stríði og að í Sýrlandi séu þau jafnvel skotmörk.
Hún segir að margir fyrrverandi hermenn hafi sagst hafa séð börn myrt. „Við sáum einnig börn sem höfðu verið pyntuð og báru þess merki. Við heyrðum einnig af því að börn - og börnin sögðu okkur þetta sjálf - væru sett á skriðdreka og notuð sem hlíðfarskildir svo að ekki yrði ráðist á skriðdrekana,“ segir Coomaraswamy við BBC.