Vilja að öryggisráðið fyrirskipi vopnahlé

Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa orðið fyrir árásum í Sýrlandi.
Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa orðið fyrir árásum í Sýrlandi. AFP

Frakkar ætla að fara fram á það við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að það fyrirskipi vopnahlé í Sýrlandi, þannig að stjórnvöldum þar í landi beri skylda til að fara eftir því.

Kofi Annan, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, náði að semja við sýrlensk stjórnvöld og stjórnarandstæðinga um vopnahlé í vor. Aðeins fáum klukkustundum síðar gripu stríðandi fylkingar aftur til vopna og hefur ekkert lát verið á ofbeldinu síðan. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að stjórnlaust borgarastríð geisi nú í landinu. Um 14 þúsund manns hafa fallið í óöldinni í Sýrlandi síðustu fimmtán mánuði.

Samkvæmt ákvæði sem Frakkar vísa til í tillögu sinni er hægt að beita lönd sem ekki fara eftir fyrirskipunum öryggisráðsins viðurlögum eða beita hervaldi gegn þeim.

„Við höfum heyrt í dag að Kínverjar eru áhyggjufullir vegna ástandsins. Svo að öryggisráðið verður nú að grípa til aðgerða,“ segir utanríkisráðherra Frakka, en Kínverjar hafa áður beitt neitunarvaldi í öryggisráðinu um aðgerðir gegn Sýrlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert