Bankamaður fær 110 ára dóm

Allen Stanford rak kerfi sem féfletti út 900 milljarða íslenskra …
Allen Stanford rak kerfi sem féfletti út 900 milljarða íslenskra króna.

Allen Stanford var dæmdur í fangelsi í 110 ár fyrir að reka svokallað Ponzi-kerfi sem féfletti fjárfesta um meira en 7 milljarða bandaríkjadala eða 900 milljarða íslenskra króna. Fyrir dómi neitaði Stanford allri sök og sagði: „Ég sveik ekki neinn.“ Ráðabrugg hans er talið eitt það stærsta í bandarískri sögu.

Forbes Magazine-tímaritið skráði Stanford sem einn af 600 ríkustu mönnum í heimi árið 2006. Hann var síðan handtekinn árið 2009 og hefur nú eytt um 3 árum í fangelsi.

Í mars sl. var Stanford dæmdur sekur í 13 af 14 ákæruliðum þrátt fyrir að lögmaður hans hafi reynt að koma allri sök yfir á fjármálastjóra hans.

Réttarhöldin fóru fram í dag. „Ég er ekki hér til að biðja um fyrirgefningu eða samúð, ég notaði ekki þetta kerfi og sveik engan,“ sagði Stanford. Tvö vitni tjáðu sig við réttarhöldin og fóru þau ekki fögrum orðum um Stanford. Annað þeirra sagði: „Hann stal meira en milljörðum, hann stal lífinu okkar eins og við þekktum það.“

Bandarískur dómari sem stýrði rannsókn á Stanford kallar aðgerðir hans „svívirðilega glæpi.“ Stanford fær 40 ára styttri dóm heldur en Bernard Madoff sem var dæmdur sekur árið 2009 fyrir svipað kerfi sem herjaði á auðuga fjárfesta en Stanford herjaði aðallega á miðstéttarfólk. Saksóknari krafðist 230 ára fangelsisvistar yfir Stanford.

Þrír fyrrverandi stjórnendur í fyrirtæki Stanford bíða nú réttarhalda.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert