Vígamenn stráfelldir í Jemen

Brynvarin og þungvopnuð tæki jemenska hersins í suðurhluta landsins.
Brynvarin og þungvopnuð tæki jemenska hersins í suðurhluta landsins. AFP

Talið er að hátt í 50 manns hafi fallið í hörðum átökum á milli jemenska hersins og vígamanna sem hliðhollir eru hryðjuverkasamtökunum al-Kaída. Minnst 40 vígamenn féllu í átökunum sem eiga sér stað í suðurhluta Jemens.

Bardagarnir eru liður í umfangsmikilli aðgerð jemenska hersins sem hófst fyrir um tveimur mánuðum. Markmið hennar er að hrekja á brott alla liðsmenn hryðjuverkasamtakanna og ná þannig aftur stjórn á landsvæðum sem fallið hafa í hendur þeirra.

Talsmenn hersins telja að liðssveitir sínar hafi jafnframt náð að umkringja hátt í 300 vígamenn. Er því ljóst að verulega er farið að þrengja að al-Kaída í Jemen.

Aðgerðir hersins eru mjög umfangsmiklar. Meðal þess sem hann notast við eru sérþjálfaðir hermenn, brynvarðir bílar og herþotur sem gera þungar loftárásir á yfirráðasvæði al-Kaída.

Minnst eitt hundrað loftárásir hafa verið gerðar á bæinn Shuqra í suðurhluta landsins. Að auki notast herinn við öflugar sprengjuvörpur í átökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert