Eftirlitsmenn SÞ í verulegri hættu

Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi sökuðu í dag alla deiluaðila í Sýrlandi um að hamla störfum þeirra við að koma á og gæta að friði. Eftirlitsmennirnir sögðust hafa takmarkaða getu til þess að fást við ofbeldið sem eykst dag frá degi.

Robert Mood, hershöfðingi og yfirmaður eftirlitssveitanna, segir að ofbeldið hafi aukist verulega undanfarna tíu daga, svo virðist að það sé með vilja gert á báða bóga. Afleiðingin hafi verið mikið mannfall og eftirlitssveitirnar séu í verulegri hættu.

Til dæmis var eftirlitssveit SÞ grýtt af stuðningsmönnum ríkisstjórnar Assads forseta fyrr í vikunni, er sveitin hugðist kanna aðstæður í bænum Al-Haffe, sem er í norðvesturhluta landsins. Eftirlitssveitin komst ekki til bæjarins fyrr en tveimur dögum síðar, þá var hann yfirgefinn, lík lágu á víð og dreif og kveikt hafði verið í flestum byggingum.

Sýrlenska þjóðin þjáist vegna aðgerðaleysis

Mood segir að sýrlenska þjóðin þjáist vegna þess að ekki hafi tekist að hrinda friðaráætlunum Kofis Annans, erindreka Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í málefnum Sýrlands, í framkvæmd.

„Það liggur engin önnur áætlun fyrir, samt sem áður er ekki búið að framkvæma hana,“ segir hann. „Í staðinn er verið að þrýsta á að gripið verði til hernaðaraðgerða.“

Að minnsta kosti 15 hafa látist í átökum í landinu í dag, þar af voru tveir stjórnarandstæðingar myrtir af stjórnarhernum í borginni Aleppo. Þar mótmæla nú þúsundir manna stjórnarháttum í landinu. Fregnir herma að a.m.k. 84 hafi látist í átökum í gær.

Stjórnarherinn leggur nú áherslu á að ná tökum á borginni Homs, sem hefur verið eitt helsta vígi stjórnarandstæðinga, og bænum Andan í Aleppo-héraði.

Deildar meiningar um viðræður

Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, segir að hugsanlega verði haldinn fundur þeirra ríkja, sem sæti eiga í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna,  í Genf í lok mánaðarins, þar sem staða mála í Sýrlandi verði rædd.  Fundurinn yrði haldinn án þeirra reglna sem fundir Öryggisráðsins eru jafnan haldnir samkvæmt.

Þetta sagði Fabius í samtali við frönsku útvarpsstöðina Inter. Hann sagði jafnframt að viðræður stæðu yfir við rússnesk yfirvöld um framtíð Sýrlands, fari svo að Assad forseti fari frá völdum.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, harðneitar því að slíkar viðræður fari fram. „Það gengur í berhögg við stefnu okkar. Við erum ekki í viðræðum varðandi stjórnarskipti í Sýrlandi,“ sagði Lavrov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert