Grænt ljóst hefur verið gefið af hálfu norsku ríkisstjórnarinnar vegna kaupa á fyrstu tveimur F-35 orrustuþotunum sem Norðmenn hafa pantað frá Bandaríkjunum en í heildina hljóðar pöntunin upp á 52 þotur. Tilkynning þess efnis var send út af norskum stjórnvöldum í dag samkvæmt fréttaveitunni AFP.
Fram kemur í tilkynningunni að um sé að ræða stærsta opinbera útboð í sögu Noregs en samningurinn hljóðar upp á 60 milljarða norskra króna. Ennfremur segir að F-35 orrustuþoturnar hafi orðið fyrir valinu árið 2008 og að þær séu ný kynslóð orrustuþotna sem verði í framtíðinni hornsteinn í hersveitum Noregs.
Norsk stjórnvöld höfðu beðið með að samþykkja kaupin þar sem bandarískir ráðamenn höfðu ekki fallist á að Norðmenn fengju að búa orrustuþoturnar flugskeytum sem framleidd eru í Noregi. Heimild til þess fékkst hins vegar fyrr í vikunni og í kjölfarið veitti norska ríkisstjórnin endanlegt samþykki sitt fyrir kaupunum.