Sýrlenski stjórnarherinn hefur ítrekað misþyrmt almennum borgurum í landinu kynferðislega; körlum, konum, stúlkum og drengjum. Þetta segja mannréttindasamtök sem kannað hafa ástand mannréttindamála í Sýrlandi.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch tóku viðtöl við tíu manns, sem verið höfðu í haldi stjórnvalda. Ýmist hafði fólkinu verið misþyrmt kynferðislega, eða það varð vitni að slíkum misþyrmingum á meðan það var í haldi.
Meirihluti fólksins var í fangelsi vegna stjórnmálaskoðana sinna, en sumir vissu ekki hvers vegna þeir höfðu verið í haldi. „Kynferðislegt ofbeldi er eitt af þeim vopnum sem sýrlensk stjórnvöld búa yfir í vopnabúri sínu og sýrlenskar öryggissveitir nota það kerfisbundið til að brjóta fólk niður og til að niðurlægja það án þess að nokkur refsing liggi þar við,“ sagði Sarah Leah Whitson, yfirmaður Human Rights Watch í Mið-Austurlöndum í samtali við AFP-fréttastofuna.
Beitt á skipulegan hátt
„Þessar misþyrmingar eru ekki bara í fangelsunum, heldur er þeim líka beitt á skipulegan hátt í árásum á borgir og bæi,“ bætti Whitson við. Misþyrmingarnar eru af ýmsum toga. Sumum hefur verið nauðgað, aðrir hafa verið þvingaðir til að ganga um naktir og kynfæri sumra hafa verið limlest.
Sumir þeirra, sem sögðu sögu sína, vildu ekki að vinir þeirra og fjölskylda vissi af misþyrmingunum sem þeir höfðu þurft að þola. Þeir skömmuðust sín og voru hræddir. Fólkið hefur takmarkaðan aðgang að læknisþjónustu og annarri aðstoð.
Sýrlensk stjórnvöld taka ekki á málum
Samtökin segjast ekki geta fullyrt um að yfirmenn í sýrlenska hernum og öryggissveitunum skipi mönnum sínum að misþyrma fólki á þennan hátt, en mörg tilvikin hafi átt sér stað við aðstæður þar sem yfirmönnum hefði átt að vera fulljóst hvað átti sér stað.
Sýrlensk yfirvöld hafa skellt skollaeyrum við öllum fréttum af þessu tagi og ekkert hefur verið gert af hálfu þeirra til að rannsaka málið eða koma í veg fyrir að slíkar misþyrmingar haldi áfram.