Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, varaði við því fyrir helgi að efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu kynnu að breiðast enn frekar út og verða þess valdandi að Ítalía og jafnvel Frakkland þyrftu á björgun að halda.
Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en Grikkir ganga til þingkosninga á morgun í annað skipti á þessu ári og eru vaxandi áhyggjur af því að niðurstaða þeirra leiði til þess að Grikkland verði gert að yfirgefa evrusvæðið.
Yfirgefi Grikkir evrusvæðið og hætti þar með að nota evruna sem gjaldmiðil er óttast að það geti haft mjög neikvæð áhrif á önnur evruríki sem þegar standa höllum fæti eins og Spán og Portúgal sem þá þyrftu líklega á alþjóðlegri björgun að halda.
Þá segir í fréttinni að margir telji að seðlabankar eins og Englandsbanki og Bandaríski seðlabankinn séu reiðubúnir að dæla gríðarlegum fjármunum inn í hagkerfi heimsins gerist þess þörf þegar markaðir verða opnaðir á mánudaginn.