Benedikt XVI. páfi viðurkenndi í dag að kynferðisbrot kaþólskra presta gegn börnum hefði dregið úr trúverðugleika kaþólsku kirkjunnar á Írlandi.
„Þeir misnotuðu einstaklinga og drógu úr trúverðugleika þess boðskaps sem kirkjan ber,“ segir í tilkynningu frá páfa í tilefni af alþjóðlegri ráðstefnu kaþólsku kirkjunnar um altarissakramentið sem haldin var í Dublin í dag.
Páfi sagði erfitt að skilja hvers vegna tilteknir einstaklingar á vegum kirkjunnar hefðu brotið gegn skjólstæðingum sínum. Hann kallaði umrædda presta syndara og sagði brot þeirra sérstaklega alvarleg þar sem þeir meðtækju reglulega altarissakramentið.
Fyrr í vikunni átti páfi fund með fórnarlömbum kynferðisbrota sem framin voru af prestum.
Kaþólska kirkjan hefur haft mjög sterk ítök í írsku samfélagi. Sú staða hefur þó veikst umtalsvert undanfarin misseri í kjölfar þess að mál tengd kynferðisafbrotum gegn bornum innan kirkjunnar hafa komið upp á yfirborðið. Sérstaklega eftir að yfirmenn kirkjunnar reyndu að hylma yfir sum brot.