Bono einn helsti aðdáandi Suu Kyi

Aung San Suu Kyi og Bono á blaðamannafundi í Ósló …
Aung San Suu Kyi og Bono á blaðamannafundi í Ósló í dag AFP

Það voru fagnaðarfundir þegar stjórnmálaleiðtoginn Aung San Suu Kyi frá Búrma og írski rokkarinn Bono hittust á friðarráðstefnu í Ósló í dag. Bono tileinkaði Suu Kyi lagið Walk On við upphaf ráðstefnunnar.

Bono er einn helsti aðdáandi Suu Kyi en hún er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma og þekkt fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum og friði. Um helgina tók hún loks við friðarverðlaunum Nóbels en verðlaunin hlaut hún árið 1991. Á þeim tíma sat hún í stofufangelsi en var loks sleppt úr haldi árið 2010. Hún er nú á ferðalagi um Evrópu.

Sagði Bono að hann væri með stjörnur í augunum er hann hitti hana í dag. Þau stýrðu saman umræðum á friðarráðstefnunni í dag. Á blaðamannafundi í dag lýsti Bono því hvernig Suu Kyi hefði fylgt hljómsveitinni U2 á hljómleikaferðalagi en á öllum tónleikum var skilaboðum frá Suu Kyi varpað á breiðtjaldi. Að sögn Bono lék hljómsveitin fyrir sjö milljónir áheyrenda og Suu Kyi var með þeim á hverju kvöldi.

Eftir ráðstefnuna í dag fór Suu Kyi ásamt Bono með einkaþotu hans til Dublin þar sem hún mun mæta á samkomu Amnesty International, Electric Burma. Um fimm þúsund manns munu taka þátt í viðburði í Dublin í dag þar sem afmælissöngurinn verður sunginn fyrir Suu Kyi en hún verður 67 ára á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert