Evrópa beið í ofvæni eftir úrslitum þingkosninganna í Grikklandi í gær. Margir vörpuðu öndinni léttar, þeirra á meðal fjármálaráðherrar evrulandanna, þegar ljóst var að hægri flokkurinn Nýtt lýðræði fékk mest fylgi, en hann styður umdeilt samkomulag Grikkja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
Vonast er til þess að úrslit kosninganna verði til þess að binda enda á óvissuástandið í landinu. Stjórnmálaskýrendur víða um heim vara við of mikilli bjartsýni og segja fjarri því að evran sé komin í skjól.
Eiríkur Bergmann Einarsson, doktor í stjórnmálafræði, segir Grikki hafa beitt brögðum til að komast inn á evrusvæðið og að þeim hafi aldrei verið stætt á að taka upp evruna. Árdís Kristín Ingvarsdóttir, mannfræðingur sem er í framhaldsnámi við háskóla í Aþenu, segir óvissuástand enn ríkja í landinu og að margir Grikkir séu tortryggnir í garð ESB.
Leiðtogi Nýs lýðræðis, Antonis Samaras, hyggst fyrst reyna að mynda stjórn með Pasok, flokki sósíalista, sem einnig styður samkomulagið við AGS og ESB. Leiðtogar ESB hvetja leiðtoga flokkanna til að mynda ríkisstjórn eins fljótt og auðið er, svo hægt verði að leiða Grikkland út úr skuldavandanum og inn í framtíðina.
En það voru ekki bara stjórnmálamenn sem var létt þegar mál höfðu skýrst í Grikklandi. Þannig tóku markaðir við sér er þeir opnuðu í morgun, en þar hafði loft verið spennuþrungið allt þar til niðurstöður kosninganna lágu fyrir. Það varði þó ekki lengi.
Kosið um AGS og ESB
Carolos Papoulias, forseti Grikklands, afhenti í morgun Antonis Samaras, formanni Nýs lýðræðis, umboð til stjórnarmyndunar, sem gildir í þrjá daga. Papoulias lagði við þetta tækifæri áherslu á að flokkarnir tveir kæmust sem fyrst að samkomulagi. Samaras sagði að mikilvægt væri að ná þjóðarsátt um nýja stjórn. „Við megum ekki láta eina mínútu fara til spillis. Við biðlum til allra stjórnmálaafla, sem deila því markmiði að halda Grikkjum innan evrusvæðisins að mynda þjóðstjórn,“ sagði hann í morgun.
300 þingmenn sitja á gríska þinginu og fékk Nýtt lýðræði 129 þeirra og Pasok fékk 33. Syriza flokkurinn undir forystu Alexis Tsipras, sem hefur hótað því að rifta öllum samningum Grikkja við AGS og ESB, fékk næstflest atkvæði, eða 71 þingmann. Nýnasistaflokkurinn Gullin dögun fékk 18 þingmenn og segist vera kominn til að vera.
Takist Nýju lýðræði ekki að mynda stjórn, þá er líklegt að Syriza fái umboðið og því ljóst að mikið er í húfi, en kosningarnar í gær snerust að miklu leyti um hvort og hvernig halda eigi áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
Óvissa en fólk heldur áfram að lifa
„Ástandið hérna er mjög áhugavert fyrir mannfræðing,“ segir Árdís Kristín Ingvarsdóttir sem er í meistaranámi í Pantheon háskóla í Aþenu í mannfræði og hnattrænum fræðum. „Auðvitað er ástandið hérna mjög erfitt, visst vonleysi og óvissa, en fólk heldur áfram að lifa, rétt eins og Íslendingar hafa gert. Það er virkilega gaman að sjá hvernig Grikkir leggja sig fram við að njóta lífsins eins og þeir geta.“
Árdís segist hafa orðið vör við óánægju víða með niðurstöður kosninganna í maí. „Þá fengu jaðarflokkar eins og Nýnasistar fengu töluvert fylgi. Það jók á ótta og óöryggi fólks, ekki síst vegna þess að nýnasistarnir virðast vera í sterkum tengslum við lögregluna og hafa komist upp með að beita fólk ofbeldi án þess að nokkuð sé í því gert. Ég hef sjálf orðið vitni að árásum nýnasista á útlendinga á háskólasvæðinu.
En nú bíður fólk eftir því sem gerist eftir þessar kosningar og auðvitað vona allir að það verði mynduð sterk stjórn.“
Blendnar tilfinningar Grikkja til ESB
Árdís segir tilfinningar Grikkja til Evrópusambandsins blendnar. „Annars vegar vilja þeir gjarnan vera hluti af þessu Evrópusamstarfi. En hins vegar eru þeir reiðir út í valdamestu þjóðir Evrópu, sér í lagi Þjóðverja sem hafa gert miklar kröfur um niðurskurð í Grikklandi og á sama tíma eru Grikkir með vopnakaupasamning við Þjóðverja, sem þeir hafa ekki fengið að endurskoða. Margir Grikkir upplifa sig sem jaðarríki, á útjaðri ESB eða eins og nýlenduríki sem er langt frá valdamiðjunni þar sem allar ákvarðanir eru teknar.“
Margir þeirra háskólanema sem Árdís hefur kynnst í Aþenu eru að hennar sögn heldur vonlitlir um að fá störf að námi loknu. „Fæstir gera sér miklar vonir um að fá vinnu. Ef fólk hefur ekki góð sambönd, þá er það mjög erfitt.“
Kostnaðarminnst að klippa á Grikkland
„Ég hugsa að margir andi léttar eftir niðurstöður kosninganna, en í ástandi eins og núna er í Evrópu, er erfitt að vera með svona úlfaríki sem hleypur sífellt undan sér. Líklega væri kostnaðarminnst fyrir ESB að klippa á Grikkland, en það væri gríðarlega alvarleg pólitísk aðgerð og það myndi sambandið treglega gera,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði við háskólann á Bifröst. Hann segir að þrátt fyrir að forsvarsmenn samstarfsríkja Grikkja fagni niðurstöðunni virðist hún ekki hafa slegið með mjög afgerandi hætti á ótta manna um afdrif evrusvæðisins.
„Það er auðvitað ekki búið að laga vanda innviðanna í grískum stjórnmálum. Þar er stjórnleysi og gríðarleg landlæg spilling. Fólk borgar ekki skattana sína og gríska ríkið hefur verið á hausnum meira eða minna alla 20. öldina. Að mörgu leyti ber það vott um barnalega óskhyggju að leyfa Grikkjum að vera með í evrusamstarfinu, því þeir uppfylltu aldrei skilyrðin til þess. “
Grikkir beittu brögðum
Eiríkur segir að leiðtogar helstu ríkja ESB hafi vitað að Grikkir beittu brögðum í aðdraganda evrunnar skömmu fyrir aldamótin. „Það stefndi í að þeir yrðu ekki með, en þá fölsuðu þeir bókhaldið með brellum sem íslenskir útrásarvíkingar hefðu verið fullsæmdir af. Fulltrúar í þýska kanslararáðinu vissu af þessu, en Helmut Kohl, þáverandi kanslari, leit framhjá þessu vegna hugmynda um leiðtogahlutverk sitt í Evrópu. En nú verða menn að taka afleiðingunum,“ segir Eiríkur.
Hann segir vanda Evrópusambandsins augljósan. „Þó hann sé viðameiri en fólk gerði ráð fyrir í upphafi, voru gallar evrukerfisins ljósir frá fyrsta degi. Þegar peningamál eru samræmd, þá þarf mun meiri samræmingu ríkisfjármála en gert var ráð fyrir. Ég er viss um að kerfisbundið samstarf ESB-ríkjanna mun halda áfram, en að þau munu laga sig að aðstæðum og það er erfitt að segja til um hvort öll þau ríki, sem nú eru innanborðs, verði það áfram.“
Spáir breytingum á ESB
Eiríkur segist telja líklegustu niðurstöðuna í þessum efnum vera þá að samruni muni aukast í fjármálum þeirra ríkja sem verða í innsta kjarna breytts Evrópusambands. „Ég tel að sambandið geti orðið lagskipt í framtíðinni, í innri kjarnanum yrði þá mjög náið samstarf og sameiginlegur gjaldmiðill og svo væri ytri hringur ríkja sem væru í lausari tengslum. Þar gætu t.d. verið sum Norðurlandanna, Bretland og einhver Austur-Evrópuríki. Allt eru þetta auðvitað bara getgátur, en þetta tel ég vera augljósustu þróun ESB út úr þessari kreppu. Það eina sem er algjörlega útilokað er að Evrópuríki ákveði að fara hvert sína leiðina og hætta kerfisbundnu samstarfi.“
55 þúsund milljarðar króna
Þeir samningar sem Grikkir hafa gert við ESB og AGS hljóða upp á meira en 200 milljarða evru lán. Grikkir hafa í tvígang þurft að leita aðstoðar í skuldavanda sínum, árið 2010 fengu þeir 110 milljarða evra að láni og í ár fengu þeir 130 milljarða. Að auki hafa Grikkir fengið afskrifaðar skuldir sem nema 107 milljörðum evra. Samtals eru þetta 347 milljarðar evra, sem jafngildir um 55 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Ekki nýtt vandamál
Vandinn er ekki nýr af nálinni og hafa stjórnmálaskýrendur sagt að Grikkjum hafi í raun og veru aldrei verið stætt á því að taka upp evruna árið 2001. Þegar ljóst var að skuldir Grikklands voru orðnar 300 milljarðar evra um miðjan desember 2009, sagði Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem þá fór með forystu í Evrópusambandinu, að Grikkir yrðu sjálfir að leita leiða til að leysa vandann. „Það sem við sjáum í Grikklandi er auðvitað stórt vandamál, en þetta er fyrst og fremst innanríkisvandi Grikkja“, sagði Reinfeldt.
Við sama tækifæri sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að Evrópusambandið bæri sameiginlega ábyrgð gagnvart Grikklandi. „Það sem gerist í einu ríki sambandsins hefur áhrif á öll hin, ekki síst þegar gjaldmiðillinn er sameiginlegur,“ sagði hún.
Grikkjum hefur verið legið á hálsi fyrir slælega skattheimtu og að skattsvik séu þar regla fremur en undantekning. Ummæli Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, í síðasta mánuði um að Grikkir leituðu allra leiða til að sleppa við skattgreiðslur, komu illa við þjóðina og brást margur Grikkinn við með því að herja á Lagarde með ýmsum óhróðri á samskiptasíðunni Facebook.
Allt of hátt skuldahlutfall
Snemma árs 2010 lá fyrir að skuldir Grikkja sem hlutfall af árlegri þjóðarframleiðslu voru 113%, en evruríkin mega ekki fara yfir 60% skuldahlutfall. Þá sagði hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, að Grikkir yrðu sjálfir að takast á við innri vanda sinn. Hagstofan hélt því ennfremur fram að Grikkir gæfu Evrópusambandinu ekki réttar upplýsingar, þeir skirrðust við að svara spurningum og að þeir færu ekki eftir bókhaldsreglum ESB. Skorað var á þá að gera bragarbót þar á. Um svipað leyti sótti Herman van Rumpoy, forseti Evrópuráðsins, Aþenu heim, og sagðist þá bera fullt traust til þess að Grikkjum tækist að leysa skuldavandann af sjálfsdáðum.
En annað kom á daginn.
Grikkir skáru niður á ýmsum sviðum að fyrirmælum ESB við litla hrifningu landsmanna, sem hófu allsherjarverkföll víða um landið. Papandreou, þáverandi forsætisráðherra Grikkja, tilkynnti í mars 2010 að engra björgunaraðgerða væri þörf. Í maí komust Evrulöndin og AGS að samkomulagi um að lána Grikkjum 110 milljarða evra. Evran hélt áfram að falla og fleiri lönd ESB börðust í bökkum.
Grikkir sögðust vera blórabögglar
Árið 2011 hófst með því að Eistland bættist í hóp evrulanda og var þar með 17. landið til að gera gjaldmiðilinn að sínum. Í febrúar var settur upp svokallaður bjargráðasjóður evrulandanna, sem innihélt um 500 milljarða evra. Um mitt ár tilkynntu ráðherrar evrulandanna að Grikkir yrðu enn að skera niður til þess að uppfylla næsta áfanga aðstoðarinnar og um svipað leyti vöknuðu vangaveltur um að Grikkir myndu yfirgefa evrusvæðið.
Þeir skáru enn frekar niður í opinberum útgjöldum og fengu frekari lán. Í ágúst varaði Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, við því að skuldavandi evruríkjanna hefði breiðst út á svæðinu og um svipað leyti keypti Seðlabanki Evrópu ítölsk og spænsk ríkisskuldabréf í þeim tilgangi að lækka lántökukostnað landanna. Bæði ríkin tilkynntu um víðtækan niðurskurð.
Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, sagði að land sitt hefði verið niðurlægt og beitt fjárkúgun og það notað sem blóraböggull fyrir vanhæfni ESB til að takast á við vanda einstakra ríkja.
Vildu eldvegg utan um Evrópu
Í lok september voru opinberaðar tölur um að vöxtur einkafyrirtækja á evrusvæðinu hefði dregist saman, í fyrsta skiptið í tvö ár. Litlu síðar hvatti Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, evrulöndin til að bregðast þegar við vandanum og standa saman. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, sagði að Evrópa yrði að reisa eldvegg utan um vandamál sín til þess að hindra að þau breiddust út um heiminn.
Á sama tíma var orðið ljóst að Grikkir réðu engan veginn við að standa við þær niðurskurðaraðgerðir sem af þeim hafði verið krafist og Barroso sagði að ESB stæði frammi fyrir stærstu áskorun sinni til þessa. William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, kallaði evruna brennandi byggingu með engum neyðarútgöngum. Viðbótarlán til Grikkja var samþykkt í október, þeir þráuðust lengi vel við að fara að skilmálum skuldunauta sinna, en létu undan í febrúar síðastliðnum. Brutust þá út talsverð mótmæli og óeirðir í landinu.
Grikkir gengu að kjörborðinu í byrjun maí og kusu til þings. Tíu dögum síðar hafði ekki tekist að mynda stjórn og var því ákveðið að kjósa aftur og var það gert í gær, 17. júní.
Merkel er bjartsýn
Samaras hefur sagt að taka þurfi upp viðræður að nýju um fyrirkomulag aðstoðar AGS og ESB og Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, segir að sjóðurinn sé í viðbragðsstöðu og muni fara til viðræðna við nýja stjórn Grikklands um leið og hún hafi verið mynduð, þannig að koma megi á stöðugleika þar og fjölga störfum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var bjartsýn eftir að úrslit lágu fyrir í gærkvöldi og sagði að Þjóðverjar væru tilbúnir til viðræðna um að fresta greiðslum á skuldum Grikkja. Merkel var reyndar fyrst Evrópuleiðtoga til að hafa samband við Samaris, hún árnaði honum heilla og sagðist vera tilbúin til samstarfs við hann á þeim forsendum að Grikkir uppfylltu skuldbindingar sínar við ESB.
Erfitt verkefni framundan
Hvernig sem fer, þá er það víst að nýrrar stjórnar í Grikklandi bíður erfitt verkefni. Að koma böndum á skuldahalla ríkisins og rétta við efnahaginn í landi þar sem atvinnuleysi mælist 22,6%. Hin nýja ríkisstjórn þarf ennfremur að stíga varfærinn jafnvægisdans á milli þess að mæta kröfum alþjóðasamfélagsins, sér í lagi ESB og þess að friða grískan almenning þar sem sumir telja stjórnvöld vera helst til mikið undir hælnum á ESB og AGS.