Franska lögreglan handtók í dag mann sem er grunaður um að hafa skotið tvær lögreglukonur til bana með byssu sem tilheyrði annarri þeirra.
Lögreglukonurnar, sem voru 29 og 35 ára, voru myrtar í þorpinu Collobrieres, skammt frá bænum Toulon, í gær. Talið er að þær hafi orðið vitni að rifrildi um meint innbrot og ákveðið að skerast í leikinn. Árásarmaðurinn, sem var undir áhrifum áfengis, hrinti annarri þeirra í jörðina, tók byssu hennar og skaut hana til bana. Við það flúði hin lögreglukonan á brott en maðurinn hljóp hana uppi og skaut á nálægu torgi.
Maðurinn var handtekinn ásamt kærustu sinni. Önnur lögreglukonan var í sambúð en hin var gift og lætur eftir sig tvær dætur.