Vildi aka strætó en endaði úti í geimi

Liu Yang, fyrsti kínverska konan sem fór út í geim.
Liu Yang, fyrsti kínverska konan sem fór út í geim. AFP

Sem barn vildi hún verða strætisvagnabílstjóri er hún yrði stór og seinna ætlaði hún sér að verða lögfræðingur. Áratugum síðar er hún þó komin út í geim og þar með fyrsti kínverski kvengeimfarinn.

Liu Yang er nú 33 ára gömul en hún ákvað að verða flugmaður eftir að fulltrúar hersins heimsóttu skólann hennar.

Tilkynnt var síðasta föstudag að hún yrði fyrsta kínverska konan til að fara út í geim og á laugardag fór hún svo í sína fyrstu geimferð.

„Frá fyrsta degi hefur mér verið sagt að ég sé ekkert öðruvísi en karlkyns samstarfsmenn mínir,“ segir Liu sem er gift en barnlaus.

Hlakkaði til að sjá jörðina utan úr geimnum

Liu gekk í herinn árið 1997 og hefur safnað 1.680 flugtímum á ferlinum. Hún var tekin inn í geimáætlun Kína árið 2010 og fyrir þremur mánuðum var henni tilkynnt að til greina kæmi að hún færi út í geim í Shenzhou-9-geimferjunni sem skotið var á loft á laugardag.

„Sem flugmaður flaug ég um himininn. Núna, þegar ég er orðin geimfari, mun ég fljúga um geiminn,“ sagði Liu áður en hún lagði af stað á laugardag. Hlakkaði hún til að upplifa þyngdarleysið og að sjá jörðina utan úr geimnum.

Áður hafa Sovétríkin og Bandaríkin sent konur út í geiminn.

Liu lét sig þó ekki dreyma um stjörnur, heldur vildi hún verða lögfræðingur eins og þeir sem sjást í vinsælum sjónvarpsþáttum. Og enn fyrr, er hún sat í strætisvagni ásamt móður sinni, heillaðist hún af starfi bílstjórans.

Í dag er hún orðin fyrirmynd kvenna um allan heim. Í heimalandinu er hún hetja.

Hjálpar að vera gift og barnlaus

Kínverska ríkissjónvarpið segir að Liu hafi verið valin í hóp geimfara þar sem hún væri í einstaklega góðu líkamlegu formi og hefði mjög mikla þekkingu og hæfileika. Þar kom einnig fram að kínversk yfirvöld vildu að kvenkyns geimfarar væru giftir og helst barnlausir. Liu uppfyllir þessi skilyrði.

Þjálfunin fyrir geimferðina á laugardag var löng og ströng. Í sextán tíma á dag í þrjá mánuði var Liu við æfingar. Hún þakkaði eiginmanni sínum fyrir stuðninginn. Þá sagðist hún ætla að ræða barneignir er hún kæmi til baka úr geimferðinni.

„Ég elska börn og ég elska lífið,“ sagði Liu. „Að vera húsmóðir og sinna fjölskyldunni getur gert mann hamingjusaman en það geta geimferðir líka gert. Og ekki allir komast út í geim.“

Liu Yang og félagar um borð í geimferjunni.
Liu Yang og félagar um borð í geimferjunni. AFP
Þrír kínverskir geimfarar yfirgáfu jörðina á laugardag. Liu Yang.
Þrír kínverskir geimfarar yfirgáfu jörðina á laugardag. Liu Yang. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert